Steinunn Bergmann

http://www.isforsa.net/

Ís-Forsa - Samtök um rannsóknir í félagsráđgjöf - er félag ţeirra sem vilja styđja viđ og efla rannsóknir í félagsráđgjöf. Ís-Forsa var stofnađ í apríl 2002.

Efni

Málþing Ís-Forsa: Árangur af stuðningsúrræðum fyrir börn, unglinga og foreldra þeirra

27.04.2013 09:22 - 3865 lestrar

Árlegt málþing Ís-Forsa er haldið í samstarfi við Barnaverndarstofu og Rannsóknastofnun í barna- og fjölskylduvernd. Umfjöllunarefni og yfirskrift málþingsins er Árangur af stuðningsúrræðum fyrir börn, unglinga og foreldra þeirra.

Málþingið verður 14. maí 2013 kl. 14.00-16.00 í Háskóla Íslands, Odda, stofu 101.

Dagskrá málþingsins má sjá hér.

Málþingið er opið öllum

Félagar í  Ís-Forsa eru hvattir til að koma með veggspjöld um rannsóknir og þróunarverkefni sín. 

Aðgangseyrir er 2.500 kr. greiðist við inngang eða reikningur sendur á stofnanir.

Nemendur í fullu námi greiða ekki aðgangseyri, aðrir nemendur greiða kr. 1.000.

Skráning er á netfangið  rbf@hi.is.


Aðalfundur Ís-Forsa 2013, 14. maí kl. 16:15

27.04.2013 09:16 - 3794 lestrar

Boðað er til aðalfundar Ís-Forsa 14. maí 2013 í Háskóli Íslands í Gimli, G 102 kl. 16:15.

Aðalfundur er haldinn í beinu framhaldi af málþingi sem fer fram milli kl. 14 og 16. Yfirskrift þess er „Árangur af stuðningsúrræðum fyrir börn, unglinga og foreldra þeirra".

Aðalfundur er opinn öllum félagsmönnum.

DAGSKRÁ aðalfundar skv.  7. gr. laga samtakanna

 • Kosning fundarstjóra og ritara
 • Afhending viðurkenningar vegna framúrskarandi meistararitgerðir
 • Skýrsla stjórnar
 • Skýrslur nefnda og starfshópa eftir því sem við á
 • Reikningar félagsins
 • Lagabreytingar
 • Ákvörðun félagsgjalda
 • Stjórnarkjör
 • Kosning í önnur trúnaðarstörf
 • Kosning tveggja skoðunarmanna reikninga
 • Önnur mál

Með góðri kveðju og ósk um gleðilegt sumar

Stjórn ÍS-Forsa

Sigríður Jónsdóttir, form.

Fundarboð aðalfundar og dagskrá er hér.

Tillögur að lagabreytingum má finna hér.


Vel sótt málþing Ís-Forsa

21.10.2012 22:53 - 4900 lestrar

formgkelly_120Á 10 ára starfsafmæli Ís-Forsa þann 12.10. 2012 var haldið málþing undir heitinu „Samþætting þjónustu -þátttaka og virkni". Til umfjöllunar var samþætting þjónustu, samstarf og þátttaka með sérstakri áherslu á virkni á atvinnumarkaði og starfsendurhæfingu.

Formaður Ís- Forsa opnaði málþingið og tilgreindi m.a. markmið samtakanna sem er að styrkja og auka rannsóknir í félagsráðgjöf og á sviði velferðarmála, fjölga greinaskrifum í tímarit, standa að málþingum og ráðstefnum, eða m.ö.o. að  stuðla að og miðla þekkingu, sem og að byggja brú milli fræða og fags, m.a. með rannsóknarsamstarfi háskóla og starfsvettvangs. Við opnun þingsins var dr. Guðrúnu Kristinsdóttur prófessor og fyrsta formanni Ís-Forsa veitt heiðursviðurkenning í þakklætisskyni fyrir frumherjastarf og elju við starf að málefnum samtakanna í þau 10 ár sem það hefur starfað. Einnig tók dr. Sigrún Júlíusdóttir prófessor og formaður Rannsóknarstofnunar í barna- og fjölskylduvernd (RBF) við styrk sem stjórn Ís-Forsa veitti Rannsókna- og þróunarsjóði RBF, sem var stofnaður á 5 ára afmæli rannsóknarstofnunarinnar. Með því vill stjórnin styðja enn frekar við rannsóknarstarf á þessu sviði hérlendis.

Að því loknu hófst hefðbundin dagskrá, Ellý Alda Þorsteinsdóttir skrifstofustjóri hjá Velferðarsviði Reykjavíkurborgar tók við málþingsstjórn og Guðrún Sigurjónsdóttir sérfræðingur í velferðarráðuneyti gerði grein fyrir lagasetningu og stefnumótun í starfsendurhæfingarmálum hérlendis.

Fyrirlesarar á málþinginu voru Anne Lise Fimreite, prófessor við Háskólann í Bergen sem stýrir árangursmati vegna NAV verkefnisins í Noregi og fjallaði hún um markmið með skipulagsbreytingunum og árangursmat, en  NAV er heiti á stórfelldu umbótaverkefni í Noregi þar sem umsækjendur um þjónustu Tryggingastofnunar, Vinnumálastofnunar og fjárhagsaðstoð félagsþjónustu sveitarfélaganna sækja þjónustu um einar dyr „one stop shop". Erla Björg Sigurðardóttir doktorsnemi fjallaði um samanburð á framkvæmd starfsendurhæfingarúrræða í Þrándheimi og í Reykjavík og Halldór Guðmundsson lektor um áhrif starfsendurhæfingarúrræða og reynsluna hérlendis.

Þátttakendur á málþinginu voru tæplega 100.

Slæður fyrirlesara má nálgast hér.

(Dagskrá , Guðrún Sigurjónsdóttir , Anne Lise Fimreite , Erla Björg Sigurðardóttir , Halldór S. Guðmundsson )


Málþing 12. okt. 2012, um samþættingu þjónustu í starfsendurhæfingu

20.09.2012 10:57 - 4456 lestrar

Í ár eru 10 ár síðan Ís-Forsa samtökin voru stofnuð hér á landi. Meðal þess sem Ís-Forsa gerir í tilefni tímamótanna er að efna til málþings þann 12. október n.k. Að þessu sinni er umfjöllunarefni „Samþætting þjónustu - þátttaka og virkni" og tileinkað árangursmati af samþættingu þjónustu og rannsóknum á sviði starfsendurhæfingar. Á málþinginu er fjallað um stefnumörkun í málaflokknum, reynslu norðmanna af umbótaverkefni í velferðarþjónustunni, (NAV), rannsókn á áhrifum samstarfs í starfsendurhæfingu og skilaboð úr rannsóknum.

Mikilvægt er að fá frekari umfjöllun um þessi mál í ljósi aðstæðna og reynslu hér og erlendis frá.

 

 Ís-Forsa efnir til málþings þann 12. október, kl. 13.00 - 16.00, á Hótel Reykjavík Natura (áður Loftleiðir), í þingsal 2.

Samþætting þjónustu.

Þátttaka og virkni.

Dagskrá.

13.00   Opnun málþings og afhending viðurkenninga í tilefni af 10 ára afmæli Ís-Forsa. Sigríður Jónsdóttir formaður Ís-Forsa

13.15   Lagasetning og stefna í starfsendurhæfingarmálum. Guðrún Sigurjónsdóttir, velferðarráðuneyti

13.30   Integrating employment and welfare services - ideas and experiences from Norway after 6 years with NAV. Anne Lise Fimreite, prófessor við Háskólann í Bergen. Stjórnandi árangursmats vegna NAV.

14.30   Kaffiveitingar

15.00   Samanburður á framkvæmd starfsendurhæfingarúrræða í Þrándheimi og í Reykjavík. Hefur formlegt samstarf ríkis og sveitarfélags áhrif á  framkvæmd starfsendurhæfingar? Erla Björg Sigurðardóttir, félagsráðgjafi MA og PhD nemi.

15.30   Áhrif starfsendurhæfingar: Sagan og skilaboð úr rannsóknum hérlendis. Halldór Guðmundsson, lektor við félagsráðgjafardeild Háskóla Íslands.

 

Málþingsstjóri: Ellý Alda Þorsteinsdóttir, Velferðarsviði Reykjavíkurborgar

Þátttaka tilkynnist HÉR eða á netfangið gudlaugjona@arborg.is

Þátttökugjald kr. 2500 greiðist við innganginn (kr. 1000 fyrir háskólanema).

 

Dagskrá málþingsins er hægt að nálgast hér.

Vinsamlegast áframsendið til þeirra sem málið varðar.

 

Með góðri kveðju,

Sigríður Jónsdóttir

formaður Ís-Forsa


Málþing 12. okt 2012 - Ís-Forsa 10 ára

09.08.2012 18:19 - 3996 lestrar

Nú eru 10 ár síðan Ís-Forsa tók til starfa. Í tilefni þessara tímamóta ákvað stjórn Ís-Forsa að senda Ís-Forsa félögum tvö nýjustu eintök ritraðar Rannsóknarstofnunar í barna- og fjölskylduvernd (RBF) og Ís-Forsa. Í öðru heftinu er fjallað um öldrunarmál Verkefni, vinnuumhverfi og líðan starfsfólks í umönnun aldraðra á Íslandi. Norræn samanburðarrannsókn (Höf:Elísabet Karlsdóttir, framkvæmdastýra RBF) og í hinu er fjallað um barnaverndarstarf „Það kemur alveg nýtt look á fólk". Rannsókn á gerð áætlana um meðferð máls í barnaverndarstarfi. (Höf: Anni G. Haugen, lektor við Félagsráðgjafardeild HÍ). Alls hafa 6 hefti verið gefin út. Ritröðina má nálgast á heimasíðu RBF (http://www.rbf.is/ritrod_rbf).

Þann 12. október verður árlegt málþing Ís-Forsa haldið. Að þessu sinni verður það afmælismálþing, undir yfirskriftinni „Samþætting, þátttaka og virkni". Á málþinginu verður fjallað um samspil notenda, þjónustukerfa og vinnumarkaðar, með áherslu á hópa sem eru í veikri stöðu á vinnumarkaði. Hver er stefnan hérlendis í þessum málum? Hvert er hlutverk ríkisins, sveitarfélaga, og annarra aðila sem að málum koma? Til hvaða aðgerða hefur verið gripið? Hvað segja rannsóknarniðurstöður okkur um árangur?

Í Noregi hefur sl. ár verið unnið að einu stærsta umbótaverkefni á sviði velferðarþjónustu þar í landi, sem gengur undir heitinu NAV. Þar sameina sveitarfélög og ríki krafta sína, og þjónusta sem áður var veitt af þremur aðilum, Vinnumálastofnun, Tryggingastofnun og félagsþjónustu sveitarfélaganna, er sameinuð undir einum hatti. Einn af fyrirlestrunum á málþinginu verður um aðdraganda, aðgerðir og árangur NAV, haldinn af einum helsta sérfræðingi í Noregi á þessu sviði, sem ber ábyrgð á árangursmati NAV .

Mikilvægt er að fá frekari umfjöllun og umræðu um þessi mál í ljósi aðstæðna og reynslu hérlendis og erlendis frá. Hvað virkar og hvert viljum við stefna á grundvelli þeirra rannsóknarniðurstaðna og þekkingar sem liggur fyrir.

Taktu frá daginn - 12. október 2012 kl. 13.

Með góðri kveðju og ósk um ánægjulegt sumar

Sigríður Jónsdóttir

formaður Ís-Forsa


Viðurkenning

20.05.2012 18:29 - 4015 lestrar

picture_158vef_120Samtök um rannsóknir í félagsráðgjöf, Ís-Forsa, er hluti norrænna systursamtaka sem vinna að framgangi rannsókna og fagþróunar í félagsráðgjöf. Þann 10. maí 2012 veitti stjórn Ís-Forsa, í þriðja sinn viðurkenningu fyrir framúrskarandi meistararitgerð á sviði velferðarmála. Viðurkenningin var afhent á aðalfundi samtakanna.  Sérstök sérfræðinganefnd metur ritgerðir sem tilnefndar eru af háskólakennurum.

Fimm einstaklingar sem luku meistararitgerð sinni á sviði velferðarmála árið 2011 með framúrskarandi árangri voru tilnefndir. Þeir voru Anna Sigrún Ingimarsdóttir fyrir ritgerð sína Samfélagsleg áföll, viðbrögð félagsráðgjafa, Helga Lind Pálsdóttir fyrir ritgerð sína Rafrænt einelti-skilningur og þekking unglinga, Valgerður Hjartardóttir fyrir ritgerð sína Að eiga samtal við barn þegar foreldri greinist með krabbamein, Þorleifur Níelsson fyrir ritgerð sína Ill meðferð á börnum, Nýjar víddir og vaxandi margbreytileiki og Valur Bjarnason fyrir ritgerð sína Staða og líðan fanga við lok meðferðar. Öll voru nemendur við Félagsráðgjafardeild Háskóla Íslands.

Að þessu sinni hlaut Valgerður Hjartardóttir viðurkenninguna fyrir ritgerð sína Að eiga samtal við barn þegar foreldri greinist með krabbamein.

Með árlegri veitingu þessarar viðurkenningar vill stjórn Ís-Forsa stuðla að viðgangi framhaldsnáms á sviði velferðaþjónustu og telur að viðurkenning fyrir framúrskarandi framlag til rannsókna á meistarastigi getur orðið nemum hvatning og stuðlað að vandaðri nýsköpun þekkingar.

Nánari upplýsingar veitir Sigríður Jónsdóttir, formaður Ís-Forsa, í síma 545 8100 eða á netfangið
sigridur.jonsdottir@vel.is.


« fyrri síđa | nćsta síđa »

Upp aftur

Vinstri hliđ

Leturstćrđir

Upp aftur

Póstlisti
Öryggiskóđi

Rannsóknarstofnun í barna og fjölskylduvernd
Samtök félagsmálastjóra í Evrópu (ESN)
NSWR

Heimsóknir

119 heimsóknir í dag og 551568 samtals
119 flettingar í dag og 614256 samtals

Vefurinn fór í loftiđ 29.03.2007

Upp aftur